Sýslumaðurinn á Selfossi hefur ákveðið að ekki verði boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Sólheimum í Grímsnesi vegna komandi alþingiskosninga. Þær hafa staðið íbúum Sólheima til boða í tengslum við margar undanfarnar kosningar til sveitarstjórnar og Alþingis.
Eins hefur oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps hafnað beiðni Sólheima um að halda þar stuttan kjörfund á kjördag, að sögn Guðmundar Á. Péturssonar, framkvæmdastjóra Sólheima. Hann sagði um að ræða rúmlega 40 fatlaða einstaklinga og taldi að mjög fáir þeirra myndu neyta atkvæðisréttar síns yrði ekki kosið á staðnum. "Það eru grundvallarmannréttindi að fólk fái að kjósa. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla er vettvangur til að tryggja að þeir sem ekki eiga auðvelt með það geti kosið," sagði Guðmundur.
Utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Sólheimum síðastliðið vor var kærð. Í úrskurði félagsmálaráðuneytisins sagði m.a. að sýslumanni hefði verið heimilt að láta hana fara þar fram, en jafnframt bent á að Sólheimar séu ekki almennt skilgreindir sem stofnun fyrir fatlaða heldur sem byggðahverfi.
Atli Gíslason hrl., sem leiðir lista VG í Suðurkjördæmi, hefur krafist þess að sýslumaður verði við tilmælum Sólheima um að þar fari fram atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.