Fylgishreyfing mest meðal kvenna á vinstri vængnum

Fylgishreyfing er nú mest á meðal kvenkyns kjósenda flokka á vinstri vængnum, samkvæmt því sem lesa má úr niðurstöðum skoðanakannana undanfarinna vikna. Samkvæmt þeim kjósa konur fremur vinstriflokkana en karlar og bendir nýjasta könnun Capacent Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið til þess að rekja megi fylgisaukningu Samfylkingar að undanförnu til flutnings á fylgi kvenna til hennar frá Vinstri grænum.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að svo virðist sem forsvarsmenn flokkanna hafi gert sér grein fyrir því fyrir nokkrum vikum að sóknarfæri þeirra lægi í fylgi kvenna og að svo virðist sem Samfylkingunni hafi tekist best að höfða til þeirra síðan.

Samkvæmt könnuninni eru konur enn mun hærra hlutfall af kjósendum Vinstri grænna en karlar. Athyglisvert er hins vegar að nú er hlutur kvenna meðal kjósenda Samfylkingarinnar orðinn hlutfallslega hærri en hlutur þeirra í kjósendahópi VG.

Heildarfylgi Samfylkingarinnar er nú með 23,5% á landsvísu samkvæmt könnuninni en heildarfylgi VG er 17,6%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er 40,2% og fylgi Framsóknaflokksins er 10,0%. Þá er fylgi Frjálslynda flokksins 5,5% fylgi og fylgi Íslandshreyfingarinnar 3,2%.

Könnunin var gerð dagana 25. apríl til 1. maí og var svarhlutfall 62,3%. Vikmörkin eru frá plús eða mínus 1,4% hjá Íslandshreyfingunni upp í plús eða mínus 3,9% hjá Sjálfstæðisflokknum. Lagðar voru þrjár spurningar fyrir þátttakendur. Fyrst var spurt: "Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?" Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: "En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?" Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: "Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert