Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, nær ekki kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Gallup gerði á fylgi flokka í Reykjavíkurkjördæmi norður og Sjónvarpið birti nú eftir hádegi í dag. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig manni samkvæmt niðurstöðunum, sem og VG, en Samfylkingin tapar manni.
Sjálfstæðisflokkurinn fær samkvæmt könnuninni 40,4% atkvæða í kjördæminu og fjóra menn; VG fengi 17,8% fylgi og tvo menn, en hefur einn; Samfylking fengi 26,3% og þrjá menn, en hefur fjóra. Framsóknarflokkurinn fengi sjö prósenta fylgi og engan mann, en hefur einn. Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin eru undir fimm prósentum og fá ekki mann.