Íslandshreyfingin krefst þess m.a. í stjórnmálaályktun, sem samþykkt var á vorþingi flokksins í dag, að skattleysismörk verði leiðrétt og færð til jafns við það sem í gildi var við valdatöku núverandi stjórnarflokka sem jafngildi 142.600 krónum að núvirði.
„Að slíta skattleysismörk úr samhengi við verðlagsþróun eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert er skammarleg framkoma við hina lægst launuðu í landinu, ekki síst með hliðsjón af gríðarlegri tekjuaukningu ríkissjóðs á undangengnu kjörtímabili. Íslandshreyfingin fordæmir blygðunarleysi ráðamanna við smíði ríkulegs eftirlaunafrumvarps í eigin þágu á sama tíma og sultarólin er hert á þeim er síst skyldi. Öryrkjadómur Hæstaréttar verði víti til varnaðar valdhöfum framtíðarinnar á Íslandi," segir í ályktuninni.
Þá krefst Íslandshreyfingin tafarlausrar breytingar á forgangsröðun í velferðarmálum og raunhæfs endurmats á sameignum þjóðarinnar.
Heimasíða Íslandshreyfingarinnar