Samfylkingin boðar fjárfestingarátak í menntun

Samfylkingin stefnir að því, að ráðast í fjárfestingarátak á öllum skólastigum með það að markmiði að árangur íslenska skólakerfisins standist samjöfnuð við það besta sem gerist. Segist flokkurinn ætla að tryggja gjaldfrjálsa menntun frá leikskóla til háskóla til að skapa öllum jöfn tækifæri og vinna gegn vaxandi stéttskiptingu í þjóðfélaginu.

Í tilkynningu frá flokknum segir, að menntun sé ein arðbærasta fjárfesting einstaklinga og samfélaga. Rannsóknir OECD sýni að aukning menntunarstigs um eitt ár að meðaltali hækki varanlega landsframleiðslu á íbúa um þrjú til sex prósentur

Samfylkingin segir, að ef tækist að fjölga í hópi þeirra í hverjum árgangi, sem ljúka námi á framhaldsskólastigi upp í 80%, þýði það eitt og sér hækkun menntunarstigs um hátt í heilt prósentustig. Ef hlutfall þeirra sem ljúka háskólaprófi ykist úr 30% í 40% myndi menntunarstigið aukast um a.m.k. 0,3 prósentur. Á tveimur kjörtímabilum mætti auka landsframleiðsluna um eina prósentu eða um það bil jafn mikið og áætlað er að álver Alcoa og Kárahnjúkavirkjun muni leggja til landsframleiðslunnar.

Samkvæmt því mætti auka tekjur íslenska þjóðarbúsins um 40 milljarða króna á ári með því að auka menntunarstig þjóðarinnar um eitt ár á mann að meðaltali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert