„Við kunnum ekki við að staðhæfingum sé beinlínis snúið við," sagði Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara, á fundi með fjölmiðlamönnum í gær. Ólafur boðaði til fundarins þar sem hann telur að annað sé vart hægt en að leiðrétta fullyrðingar stjórnarþingmanna um staðreyndir.
„Hvað eftir annað heyrir maður sagt að skattbyrði hafi minnkað, og við höfum svo margoft bent á að það sé alls ekki satt," sagði Ólafur. "Þar höfum við bakvið okkur ríkisskattstjóra, hagstofuna og fræðimenn í HÍ."
Ólafur segir að þrátt fyrir að skattbyrðin hafi aðeins lækkað á síðasta ári verði ekki hjá því komist að horfa lengra aftur í tímann. Þannig sé skattahækkun hjá eldri borgara upp á heil mánaðarlaun frá árinu 1988, fyrir þann sem hafi 117.500 krónur í laun á mánuði í dag. Sá greiðir 9.823 krónur á mánuði í tekjuskatta, en af sömu rauntekjum greiddi sami aðili hins vegar ekki krónu í tekjuskatta við upptöku staðgreiðslukerfisins árið 1988. Þarna hafa tekjuskattar hans hækkað verulega þó að tekjurnar hafi staðið í stað að raungildi.
Vísaði Ólafur m.a. til greinar eftir fjármálaráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í mars. Þar sagði m.a.: „Samhliða lækkun á tekjuskatti hefur persónuafsláttur hækkað umtalsvert og hafa skattleysismörk verið hækkuð um 30% á þessu kjörtímabili sem er langt umfram þróun verðlags á sama tíma". Ólafur segir þetta ýkjur og bendir á að hefðu skattleysismörkin fylgt launavísitölu væru þau 142.600 krónur.
"Þá er því haldið fram að einhleypir lífeyrisþegar hafi hærri ráðstöfunartekjur en einhleypir á vinnumarkaði. Þetta er náttúrlega bara heimsmet," sagði Ólafur og vísaði í norrænan samanburð um ráðstöfunartekjur eldri borgara. Hann segir stjórnarþingmenn sýna afar villandi tölur úr NOSOSCO skýrslu 2006 um norrænan samanburð þar sem skilgreiningin á fjölskyldu hér á landi sé allt önnur en á hinum Norðurlöndunum.
„Þeir bera þetta saman við Evrópuþjóðir þar sem miðað er við fólk frá 24 ára til 67 ára. Hér á landi er hins vegar hópurinn 16 ára til 24 ára einnig tekinn með en sá hópur hefur langlægstu launin – þannig að einhleypir á vinnumarkaði koma verr út en einhleypir lífeyrisþegar."
Einnig benti hann á aðra vankanta, s.s. vegna þess að 90% lífeyrisþega á Norðurlöndunum hefja töku lífeyris 65 ára eða yngri en á Íslandi er þetta seinna, eða um 67–70 ára.