Samkvæmt nýrri könnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, eykst fylgi Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar frá samskonar könnun, sem birt var í gær, en fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Frjálslynda flokksins minnkar.
Samkvæmt könnuninni, sem gerð var 6. og 7. maí, segjast 38,4% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk en í könnun gærdagsins var þetta hlutfall 41,9%. Samkvæmt þessu fengi flokkurinn 25 þingmenn en litlu munar á 26. þingmanni flokksins og 11. þingmanni VG.
27,1% segjast ætla að kjósa Samfylkinguna en í könnuninni í gær mældist fylgi flokksins 25,1%. Flokkurinn fengi 18 þingmenn samkvæmt þessu.
Fylgi VG mælist nú 16,5% en mældist 17,5% í könnuninni í gær. Flokkurinn fengi 11 þingmenn miðað við þessa niðurstöðu.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 9,8% en var 7,6% í könnuninni í gær. Flokkurinn fengi 6 þingmenn.
Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 5,3% í könnuninni í dag en var 6% í könnun gærdagsins. Þingmenn flokksins yrðu 3 samkvæmt þessu.
Fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist í dag 2,9% en var 2% í gær.
Í könnuninni var spurt um hvort viðkomandi styddu ríkisstjórnina og svöruðu 49,7% þeirri spurningu játandi en 50,3% neitandi. Talsverður munur er á afstöðu kynja til ríkisstjórnarinnar en 54,4% karla svöruðu þeirri spurningu játandi en 55,4% kvenna svöruðu neitandi.
Úrtakið í könnuninni var 1150 manns, 18 ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 63,7%. Alls nefndu 86% flokk, 5,6% neituðu að svara, 5,4% sögðust óákveðin og 3,2% sögðust ætla að skila auðu.
Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“