Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefur samið nýtt frumvarp til laga, sem verður eitt af fyrstu frumvörpum sem nýr þingflokkur mun leggja fram á Alþingi eftir kosningar. Í frumvarpinu er kveðið á um, að ráðherrum sé óheimilt að gera samninga sem binda ríkissjóð til útgjalda, síðustu 90 dagana fyrir kosningar.
VG kynnti frumvarpið á blaðamannafundi í dag. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, sagði þar að undirskriftir og fjöldi loforða ráðherra um fjárframlög að undanförnu hafi gengið fram af mörgum. Oft hafi fjárreiður ríkisins gengið fram af fólki en steininn hafi tekið úr nú og upp á síðkastið hafi ráðherrar skrifað nánast hvern einasta dag upp á samninga án þess að fyrir liggi heimildir í fjárlögum.