Bréf frá Einari Oddi Kristjánssyni, alþingismanni, til bænda í Norðvesturkjördæmi hefur vakið hneykslan bændakvenna á svæðinu.
Þingmaðurinn, sem er í þriðja sæti á lista Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, byrjar bréfið á orðunum; „Kæri vinur," og þykir bændakonum, sem Einar Oddur hafi gleymt þeim, því hann biður um stuðning við sig í komandi kosningum en sendir bréfið eingöngu á karlmenn í búrekstri á svæðinu.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sendi líka bréf til bænda á svæðinu en eingöngu til karlmannsins á heimilinu og hefst á orðunum; „Ágæti bóndi".
Í gær barst bændum í Norðvesturkjördæmi bréf þar sem sagt er frá ályktun Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum. Guðný H. Jakobsdóttir, bóndi í Syðri-Knarrartungu og formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands, sagðist í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins ekki hafa fengið neitt bréf frá Einari Oddi en bréfið hafi verið sent eiginmanni hennar. Hún hafi heyrt í fleiri konum í búrekstri á svæðinu og þær séu sammála um að þetta beri vott smekkleysi og að þingmaðurinn hafi hreinlega ekki hugsað um konur í landbúnaði.
Hún segir að í dag hafi bændum líka borist bréf frá formanni Frjálslynda flokksins, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, sem eingöngu er sent karlmanninn á heimilinu og hefst á orðunum „Ágæti bóndi.."
„Mér finnst þetta fyrst og fremst hallærislegt,"segir Guðný og segir að ef menn vilji koma boðskap sínum á framfæri þurfi þeir að minnsta kosti að leggjast í smá undirbúningsvinnu. „Það má ekki alveg gleymast að helmingur bænda eru konur. Með smá vilja hefði nú verið hægt að athuga hvort fleiri búi á heimilinu en karlinn og hefja bréfið á „Ágætu bændur" eða kóróna þetta alveg og byrja bréfið „Kæri vinur og frú", bætir Guðný við og hlær.
Guðný segir þetta endurspegla undarlegt viðhorf til kvenna í landbúnaði og allt of oft sé litið á þær sem aukaleikara. Þess má geta að þrjár konur gegna formennsku af átta Búnaðarsamtökum víða um land.