Samfylking og VG bæta við sig

mbl.is/Kristinn

Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð bæta við sig fylgi í nýrri raðkönnun Capacent Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, ef miðað er við könnun sem gerð var í gær. Fylgi Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins er nánast óbreytt en fylgi Framsóknarflokksins minnkar sem og Íslandshreyfingarinnar.

Könnunin var gerð dagana 8. og 9. maí. Samkvæmt henni fær Sjálfstæðisflokkurinn 35,8% fylgi og 23 þingmenn en fékk 35,9% í könnuninni í gær.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 26,1% í dag en var 25% í gær. Samkvæmt þessu fær flokkurinn 17 þingmenn.

Fylgi VG mælist 15,9% í dag en mældist 14,5% í gær. Samkvæmt því fær flokkurinn 10 þingmenn.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist í dag 13,6%, sem þýðir 9 þingmenn, en fylgi flokksins mældist 14,6% í gær.

Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 6,5% í dag en 6,6% í gær. Samkvæmt því fær flokkurinn 4 þingmenn.

Fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist 2% í dag en mældist 3,3% í gær.

Síðasti þingmaður inn, samkvæmt könnuninni, er framsóknarmaður en næsti maður inn er sjálfstæðismaður. Sjálfstæðisflokkurinn þarf þó að bæta nokkru við sig til að fella 9. mann Framsóknarflokksins.

89,5% nefndu flokk í könnuninni. 4,6% neituðu að svara, 2,9% sögðust óákveðin og 3% sögðust ætla að skila auðu. Vikmörk eru á bilinu 1,1-3,7% eftir flokkum.

Úrtakið í könnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Í því voru 1097 manns 18 ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 64,2%. Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka