Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný

mbl.is/Kristinn

Ríkisstjórnin missir þingmeirihluta sinn samkvæmt niðurstöðum síðustu raðkönnunar Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, sem gerð var dagana 9. til 10. maí. Samkvæmt könnuninni fær Sjálfstæðisflokkurinn 38,4% og bætir heldur við sig á lokasprettinum, fær 25 þingmenn. Fylgi Framsóknarflokksins dalar hins vegar á ný og mælist nú 10,3%, sem þýðir 6 þingmenn. Samanlagt eru þetta 48,7%, sem skila stjórnarflokkunum 31 þingmanni.

Stjórnarandstöðuflokkarnir fá hins vegar nauman þingmeirihluta, 32 þingmenn, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Frjálslyndir fá 6% og 4 þingmenn, Vinstrihreyfingin-grænt framboð 17,6% og 11 þingmenn og Samfylking 25,8% og 17 þingmenn.

Úrtakið þessa tvo daga var 1194 manns og var svarhlutfall 63,7%.

Séu hins vegar allar kannanir Gallup í vikunni, með 3160 manna úrtaki, lagðar saman, heldur stjórnarmeirihlutinn með 49,9% atkvæða og 32 þingmenn. Það sama er uppi á teningnum þegar skoðuð eru svör kjósenda við spurningunni hvort þeir styðji stjórnina eða séu henni andvígir. Alla vikuna hafa fylkingarnar verið nánast hnífjafnar og þegar öll svör vikunnar eru lögð saman segjast 50,5% þeirra, sem tóku afstöðu, styðja stjórnina en 49,5% eru henni andvígir.

Þegar kannanir vikunnar eru lagðar saman fær Sjálfstæðisflokkur 38,9% og 25 þingmenn, Framsóknarflokkur 11% og 7 þingmenn, Samfylking 25,6% og 17 þingmenn, VG 16% og 10 þingmenn, Frjálslyndi flokkurinn 6,3% og 4 þingmenn og Íslandshreyfingin 2,2%: Síðasti þingmaður inn er 17. þingmaður Samfylkingarinnar og þarf Sjálfstæðisflokkurinn litlu að bæta litlu við sig til að ná inn sínum 26. manni á kostnað 17. manns Samfylkingarinnar.

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka