Fréttaskýring: Samfylking kemur á óvart – Framsókn í sögulegu lágmarki

Forustumenn stjórnmálaflokkanna fylgjast með lestri talna í Útvarpshúsinu í kvöld,
Forustumenn stjórnmálaflokkanna fylgjast með lestri talna í Útvarpshúsinu í kvöld, mbl.is/ÞÖK
Eftir Ólaf Þ. Stephensen olafur@mbl.is

Ekki þarf að fjölyrða um það að ríkisstjórnarmeirihlutinn er fallin samkvæmt fyrstu tölum. Framsóknarflokkurinn fær aðeins sjö þingmenn – missir fimm - og fær minna fylgi en nokkru sinni áður í sögunni. Nokkrir af helztu leiðtogum flokksins á suðvesturhorni landsins virðast fallnir af þingi eða í mikilli fallhættu.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Sjálfstæðisflokkurinn bætir lítillega við sig, sem teljast má gott eftir 16 ára stjórnarsetu. Fylgið er þó tæplega nóg til að sjálfstæðismenn séu verulega ánægðir með úrslitin, sérstaklega í ljósi skoðanakannana á lokaspretti kosningabaráttunnar. Flokkurinn er undir meðalfylgi sínu í sögunni, sem er tæplega 39% atkvæða.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er sigurvegari kosninganna; bætir við sig um 5 prósentustiga fylgi og fjórum þingmönnum. Samt er fylgi VG aðeins rúmur helmingur af því, sem kannanir spáðu flokknum fyrir fáeinum vikum.

Frjálslyndir halda sínu og virðast ætla að verða annar flokkurinn utan gamla fjórflokksins, auk Kvennalistans, sem nær því að fá menn á þing þrennar kosningar í röð. Klofningur flokksins skömmu fyrir kosningar hefur ekki skaðað hann jafnmikið og margir væntu og lítið fylgi hefur fylgt Margréti Sverrisdóttur og fylgismönnum hennar yfir í Íslandshreyfinguna.

Vinstristjórn í spilunum
Vinstristjórn er augljóslega í spilunum, gangi þau úrslit eftir sem lítur út fyrir eftir fyrstu tölur. Kaffibandalagið hefur tveggja þingsæta meirihluta á þingi.

Vafalaust hefjast þreifingar á milli stjórnmálaleiðtoga strax í nótt. Frá baklandi þingflokka VG og Samfylkingarinnar verður þrýstingur á að hefja viðræður um vinstri stjórn með þátttöku Frjálslyndra eða þá Framsóknarflokksins áður en aðrir kostir verða reyndir.

Hins vegar á Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað tvo kosti á myndun tveggja flokka ríkisstjórnar og getur boðið upp á skýrari kosti fyrir nýjan samstarfsflokk en blasa við í fljótu bragði í þriggja flokka viðræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert