Minni kjörsókn hefur verið í Reykjavíkurkjördæmunum báðum í dag miðað við síðustu alþingiskonsingar fyrir fjórum árum. Í Reykjavík suður höfðu 29.488 kosið á kjörstað klukkan 20, sem er 67,96% kjörsókn en á sama tíma árið 2003 var kjörsókn orðin 73,14%. Í Reykjavík norður höfðu 27.487 kosið klukkan 20 sem er 62,79% kjörsókn en á sama tíma árið 2003 var kjörsókn 70,71%. Gert er ráð fyrir því í öllum kjördæmum að fyrstu tölur birtist strax klukkan 22 þegar kjörstöðum er lokað.
Í Suðvesturkjördæmi höfðu 37.944 kosið á kjörstað sem gera um 69,5% kjörsókn. Á sama tíma í alþingiskosningum 2003 var kjörsókn 36.490 eða um 74,7%.
Í Norðvesturkjördæmi höfðu 57% kosið klukkan 18 í kvöld en 21.126 eru á kjörskrá. Ekki liggja fyrir samanburðarhæfar tölur frá síðustu kosningum.
Að sögn yfirkjörstjórna, sem rætt var við, hafa engin sérstök mál komið upp í tengslum við kosningarnar.