„Ég er ákaflega ánægður með þessa niðurstöðu fyrir mitt leyti,“ segir Kristinn H. Gunnarsson sem náði kjöri sem þingmaður Frjálslynda flokksins en hann hefur áður setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og Alþýðubandalagið.
„Staða flokksins á landsvísu er að mörgu leyti góð. Flokkurinn varð fyrir klofningi í vor og það fólk sem fór úr honum beitti sér síðan gegn honum. Við erum með sama fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum 2003 og sama þingmannafjölda,“ sagði Kristinn og bætti við að úrslitin séu sigur fyrir flokk sem hafi verið í erfiðri stöðu og hann standi sterkari á eftir.
„Flokkurinn hélt velli, m.a. vegna mjög góðrar frammistöðu formannsins á lokaspretti baráttunnar. Þetta er að mörgu leyti persónulegur sigur hans.“
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, var í efsta sæti í Norðvesturkjördæmi og náði kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður. Kristinn var í 2. sæti listans.