Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs krafði Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins um afsökunarbeiðni vegna persónulegra árása í sinn garð í kosningabaráttu flokksins í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Jón sagðist geta fullyrt að ekki hafi á neinn hátt verið vegið viljandi að Steingrími í kosningabaráttu flokksins. Hann kvaðst þó ætla að kynna sér málið á grundvelli staðhæfinga Steingríms.
Sagði Steingrímur heiðvirða menn innan flokksins hafa leyft ungum áróðursmeisturum að taka völdin í kosningabaráttunni og að það hefði að sínu mati reynst honum mjög dýrkeypt í kosningunum í gær.