Árni Þór Sigurðsson er nýr þingmaður, kemur inn sem níundi kjördæmakjörni maðurinn fyrir Vinstrihreyfinguna–grænt framboð en hann hefur verið borgarfulltrúi undanfarin kjörtímabil. Hann segir þingmennsku leggjast vel í sig, vill ekki útiloka neitt stjórnarmynstur fyrirfram og er sáttur við niðurstöðu kosninganna.
„Að minnsta kosti hvað okkur snertir,“ segir hann. „Þetta er mikil aukning og sýnir, eins og við metum það, mikinn stuðning við okkar mál.“
Hann segir úrslitin bera í sér tvo sigurvegara, Sjálfstæðisflokk og VG. „Vonbrigði og vonbrigði, það eru náttúrlega vonbrigði fyrir okkur sem börðumst fyrir því að fella ríkisstjórnina að það skuli ekki hafa tekist,“ segir hann um þá niðurstöðu.