Bjarni Harðarson: „Fundum fyrir heilmiklum meðbyr"

Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, kemur nýr inn á þing sem þingmaður Suðurkjördæmisins þar sem flokkur hans hlaut tæp 19% atkvæða. Lítur hann á úrslitin í kjördæminu sem varnarsigur og segist ákaflega ánægður með þá útkomu.

„Við lækkum aðeins í fylgi en þó minna en annarsstaðar og erum bara þakklátir fyrir það," segir hann. „Við fundum fyrir heilmiklum meðbyr hér á svæðinu," bætir hann við.

Bjarni segist vera Framsóknarmaður af gamla skólanum og mun leggja áherslu á málefni byggðastefnu sem hann lýsir sem einum þriggja hornsteina Framsóknarflokksins. „Hinir tveir eru umhverfismál og baráttan fyrir því að Ísland haldi fullveldi sínu."

Bjarni segist telja að flokkurinn muni jafna sig á fylgishruninu á höfuðborgarsvæðinu „en til þess þarf flokkurinn að byggja á þessum fyrrnefndu þremur atriðum, sem hafa verið meginatriðin í stefnu flokksins í 90 ára sögu hans. En mér finnst hann stundum hafa misst svolítið sjónar af þessum málum. Ég held líka að innanflokksátök á síðasta kjörtímabili hafi skaðað flokkinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu," segir hann

„En Framsóknarflokkurinn er ennþá einn af stóru flokkunum á landsbyggðinni þó svo að við höfum aðeins fækkað þingmannatölunni þar og við njótum heilmikils trausts hjá landsbyggðarfólki.

Bjarni er fæddur árið 1961 og er áttundi þingmaður Suðurkjördæmis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka