Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við Sjónvarpið eftir að þingflokksfundi flokksins lauk í kvöld, að hann hefði á fundinum farið yfir þá stöðu, sem við blasir eftir þingkosningarnar. Geir sagði, að staðan væri sú, að ríkisstjórnin sæti áfram nema sérstök ákvörðun verði tekin um annað og ekki þyrfti sérstakar stjórnarmyndunarviðræður milli stjórnarflokkanna tveggja. Þeir þyrftu hins vegar að fara yfir það hvort pólitískar forsendur væru fyrir áframhaldandi samstarfi.
Geir sagði aðspurður um orðróm um aðra kosti, að ýmsir væru að tala saman í þinghúsinu eins og gengi þegar svona stæði á og ekkert væri óeðlilegt við það.
Geir sagðist á fundinum hafa fengið umboð þingflokksins til að vinna úr þessu máli eins og best væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þá vonandi einnig fyrir þjóðina.