Líklegast að stjórnin sitji áfram

Brynjar Gauti
Eftir Ólaf Þ. Stephensen olafur@mbl.is
Miklar líkur eru á því að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verði haldið áfram. Flokkarnir fengu samtals 32 þingmenn í kosningunum á laugardag, minnsta mögulega meirihluta.

Formenn flokkanna, þeir Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson, hittust á fundi í gærmorgun og í framhaldi af honum byrjaði fólk í innsta kjarna beggja flokka að leggja línur að áframhaldandi samstarfi.

Varamenn inn fyrir ráðherra?
Meðal þess, sem er til skoðunar, er hvernig leysa megi þau vandkvæði á að manna stöður í stjórnarsamstarfinu sem hljótast af miklu fylgistapi Framsóknarflokksins. Gengið er út frá því að ráðherrum Framsóknar í stjórninni fækki í fjóra eða fimm.

Jón Sigurðsson, formaður flokksins, verður væntanlega áfram ráðherra þótt hann hafi ekki náð kjöri til þings. Þá má reikna með að núverandi ráðherrar, sem náðu kjöri, geri tilkall til ráðherrasæta. Þá eru aðeins eftir þrír þingmenn, Birkir Jón Jónsson og nýliðarnir Bjarni Harðarson og Höskuldur Þór Þórhallsson, til að manna stöður á þingi.

Á milli stjórnarflokkanna er rædd sú hugmynd, sem Jón Sigurðsson viðraði í sjónvarpsumræðum í gærkvöldi, að kalla megi inn varamenn fyrir þingmenn, sem gegna störfum ráðherra. Fordæmi eru fyrir slíku, t.d. frá Noregi, en til þess að svo megi verða þarf að breyta lögum.

Pirraðir á Ingibjörgu
Innan Sjálfstæðisflokksins var það sjónarmið engu að síður talsvert áberandi í gær að ekki væri hægt að treysta á eins manns meirihluta með Framsókn og fremur ætti að freista þess að taka upp samstarf með Samfylkingunni. Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði þá sett sig í samband við forystu Sjálfstæðisflokksins og þreifað á möguleikum á samstarfi. Þó fór framgangsmáti Ingibjargar eitthvað í taugarnar á sjálfstæðismönnum, sem töldu hana hafa nálgazt flokkinn af hroka, sem væri ekki líklegur til að skapa traust í samskiptum. Þótt staða sjálfstæðismanna sé sterk eftir kosningarnar, með því að ríkisstjórnarmeirihlutinn hélt og Geir Haarde þarf ekki að biðjast lausnar fyrir stjórnina, er það þó ekki alveg svo að þeir hafi öll tromp á hendi og geti valið sér samstarfsflokk að vild.

Samfylkingin hefur látið þau boð ganga til framsóknarmanna að þeir séu velkomnir til vinstristjórnarsamstarfs með Samfylkingu og VG. Ingibjörg Sólrún ræddi þann möguleika í sjónvarpsumræðum í gærkvöldi, jafnframt samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Áhætta að sleppa Framsókn
Í ljósi þess að framsóknarmenn hafa sýnt vilja til að halda áfram samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn telja margir í forystusveit flokksins varasamt að afþakka áframhaldandi samstarf og leita hófanna við Samfylkinguna. Það gæti þýtt – fyrst Framsókn vill á annað borð setjast í ríkisstjórn – að framsóknarmenn sneru sér þá strax til Samfylkingar og VG. Báðir flokkar myndu að öllum líkindum fremur taka tilboði um vinstri stjórn en að taka þátt í að styðja Sjálfstæðisflokkinn til stjórnarforystu fimmta kjörtímabilið í röð. Ef sjálfstæðismenn slitu sambandinu við framsóknarmenn gætu þeir þannig verið að bjóða upp á myndun vinstri stjórnar, sem myndi útiloka þá frá stjórnarsetu næstu árin.

Einhverjar þreifingar hafa líka farið fram milli VG og stjórnarflokkanna beggja. Framganga Steingríms J. Sigfússonar í umræðum í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem hann fór fram á að Jón Sigurðsson bæðist afsökunar á auglýsingum, sem ungir framsóknarmenn birtu, hefur hins vegar ekki aukið áhuga framsóknarmanna á að tala við VG. Innan Sjálfstæðisflokksins virðist líka lítill áhugi á samtölum við VG að svo stöddu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert