Kjörstjórnir þriggja kjördæma hafa þegar skilað niðurstöðum kosninganna til Landskjörstjórnar en ekki hafa enn borist niðurstöður úr Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðurkjördæmi. Samkvæmt upplýsingum Einars Farestveit, starfamanns Landskjörstjórnar hafa kjördæmakjörstjórnirnar frest til hádegis á föstudag til að skila skýrslum með niðurstöðum sínum.
Einar segir að Landskjörstjórn muni síðan fara yfir skýrslurnar og fjalla um þær á fundi sínum sem hefst klukkan fjögur á sunnudag. Á fundinum fer einnig fram formleg úthlutun þingsæta á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslum kjördæmakjörstjórnanna og í kjölfarið verða gefin út kjörbréf þingmanna.
Send verður út fréttatilkynning að fundinum loknum og niðurstöðurnar svo birtar í heild sinni í Stjórnartíðindum.