34,7% þeirra, sem tóku afstöðu í könnun Fréttablaðsins í gær sögðust vilja að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi ríkisstjórn. 32,4%, sögðust vilja að núverandi stjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, haldi áfram samstarfi en 18,6% sögðust vilja að Samfylking, Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin-grænt framboð myndi stjórn.
Þá sögðust 14,3% vilja að Sjálfstæðisflokkur og VG myndi stjórn.
Blaðið segir að stuðningur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi aukist umtalsvert frá því blaðið spurði síðast um stjórnarkosti viku fyrir kosningar en þá sögðust 14,5% vilja slíka stjórn. Stuðningur var meiri við þennan kost á höfuðborgarsvæði, eða 40,1% en á landsbyggðinni sögðust 36,3% vilja núverandi stjórnarflokka áfram.
Könnunin var gerð í gær og var hringt í 800 manns. 74,5% tóku afstöðu til spurningarinnar um stjórnarkosti.