Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde svara spurningum fréttamanna í …
Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde svara spurningum fréttamanna í Stjórnarráðinu. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokks, tilkynntu í dag, að þeir hefðu komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu um að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi flokkanna í ríkisstjórn. Geir sagði að hann myndi á morgun ganga á fund forseta Íslands og biðjast lausnar fyrir fyrir sig og ráðuneyti sitt. Sagðist hann reikna með því, að leita eftir viðræðum við Samfylkinguna um stjórnarmyndun og hugsanlega muni flokkarnir hefja þær viðræður á morgun.

Geir sagði, að samstarf flokkanna tveggja undanfarin 12 ár hefði verið gott og enginn málefnalegur ágreiningur væri uppi milli þeirra en við núverandi aðstæður hefði þótt rétt, að stokka þessi spil upp á nýtt. Sagði Geir ljóst, að samstarf með eins manns meirihluta á Alþingi, við þær aðstæður sem nú væru, yrði erfitt og myndi reyna mjög á samheldni og styrk samstarfsins. Það væri mat manna að að þetta væri í heild sinni of veikt til að farsælt yrði að halda samstarfinu áfram. Aðalatriðið væri að hér á landi sæti öflug stjórn með styrkan meirihluta á bakvið sig og það gætu þessir tveir flokkar ekki skaffað.

„Við höfum ekki áhuga á að sitja í ríkisstjórn bara til að sitja. (...) Eins atkvæðis meirihluti er einfaldlega ekki nógu tryggur," sagði Geir.

Vissu af miklum áþreifingum annarra flokka
Jón sagði, að það hefði einnig haft áhrif á þingflokk framsóknarmanna, að menn þar hefðu vitað af miklum áþreifingum annarra flokka en ljóst hefði verið, eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir, að Framsóknarflokkurinn myndi halda sig til hlés í stjórnarmyndunarviðræðum. Þingflokkurinn hefði í dag farið mjög vandlega yfir málið og niðurstaðan væri þessi. Samstaða væri í hópnum um að ekki væri hægt að halda áfram samstarfinu við núverandi skilyrði og menn hefðu fullan hug á því að vinna úr þessari stöðu.

Um eigin stöðu sem formaður Framsóknarflokksins sagði Jón, að hún yrði rædd á næstunni og framsóknarmenn yrðu fyrstir til að frétta af þeim umræðum.

Geir sagði aðspurður, að hann hefði rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, í síma en það hefðu ekki verið neinar samningaviðræður. Hann sagðist hins vegar ekki hafa verið í samtölum við aðra flokka heldur hefðu þingmenn allra flokka verið að tala saman með óformlegum hætti. Þá sagði Geir ljóst, að styttra væri á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og einnig yrði þingmeirihluti þessara flokka meiri ef af yrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka