Fyrsti formlegi viðræðufundur Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, hófst klukkan 14 í Ráðherrabústaðnum. Geir fékk í dag umboð forseta Íslands til að hefja viðræður um myndun ríkisstjórnar þessara tveggja flokka en þau Geir og Ingibjörg áttu fund í gær þar sem þau ákváðu að hefja slíkar viðræður.
Ingibjörg Sólrún sagði við fréttamenn fyrir fundinn, að mikill stuðningur væri innan Samfylkingarinnar við þessar stjórnarmyndunarviðræður og hún gengi til þeirra full af bjartsýni og vonglöð um að það takist að ná niðurstöðu.