Geir falið að mynda nýja ríkisstjórn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur falið Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að reyna að mynda nýja meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sagði Ólafur að hann hefði gert þetta í ljósi þeirra viðræðna, sem þegar hefðu farið fram milli Geirs og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og eftir viðræður sínar við Geir í dag teldi hann ekki nauðsynlegt að ræða við aðra flokksleiðtoga við þessar kringumstæður.

Geir sagðist myndu hafa samband við Ingibjörgu Sólrúnu og væntanlega myndu þau hittast síðar í dag.

Ólafur Ragnar sagði, að á fundi þeirra hefði Geir beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og hefði hann fallist á þá lausnarbeiðni en óskað jafnframt eftir því að núverandi ráðherrar sitji áfram í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn verður mynduð.

Ólafur Ragnar sagðist ekki hafa sett viðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar neinn sérstakan tímafrest en lýst því yfir að æskilegt væri að niðurstaða fengist í þær innan viku eða 10 daga.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnir að hann hafi fallist …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnir að hann hafi fallist á lausnarbeiðni Geirs H. Haarde en jafnframt falið honum að reyna að mynda nýja ríkisstjórn. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert