Guðjón A: Hraðinn kom á óvart

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að atburðarás gærdagsins hafi komið sér nokkuð á óvart. Segir hann ljóst að búið hafi verið að koma á drögum að samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar fyrir nokkrum dögum.

„Það kemur á óvart hvað þetta gerðist hratt. Það virðist hafa legið grunnur að samstarfi milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Svona lagað fæðist ekki á hálftíma," sagði Guðjón Arnar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Guðjón segir að á meðan viðræður Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi staðið hafi hann viðrað þá hugmynd að Frjálslyndi flokkurinn kæmi inn í stjórnina. Hafi hann persónulega haft samband við Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, og varpað fram þessum möguleika. „Það kom einfaldlega ekki til viðræðna um málefnalegan grundvöll því það stóð einfaldlega á þessu hjá þeim [Framsóknarflokknum] gagnvart sjálfstæðismönnum."

Tilboðinu var ekki svarað

Spurður um hvað nú taki við segir Guðjón Arnar að sé Samfylkingin tilbúin að ræða stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn þá hljóti forseti að fela Geir H. Haarde stjórnarmyndunarumboð. Hann vill ekki segja til um hvað honum finnist um slíka stjórn fyrr en fyrir liggi hvernig hún muni taka á byggðamálum og sjávarútvegsmálum.

Hvort einhverjir möguleikar séu í núverandi stöðu á því að Frjálslyndi flokkurinn komist í ríkisstjórn segir Guðjón Arnar að gærdagurinn hafi sýnt að aldrei sé hægt að segja til um hvernig atburðarásin þróist. Fyrst sé að sjá hvernig mál þróist í viðræðum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert