Engu að síður má spyrja hvort afstaða flokkanna hafi ekki fyrst og fremst mótast af stöðu þeirra sem ríkisstjórnarflokks og stjórnarandstöðuflokks við hlið pólanna í stóriðjuumræðunni: Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Að minnsta kosti verður vart séð að stefna flokkanna í málaflokknum sé ósamrýmanleg. Bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur lögðu upp með það í kosningabaráttunni að gera þyrfti heildstæðar áætlanir um það hvaða auðlindir mætti virkja og hverjar skyldi vernda. Samfylkingin gekk aftur á móti lengra í stefnu sinni "Fagra Ísland" og lagði þar til að frekari stóriðjuframkvæmdum yrði frestað þar til gerð áætlunarinnar yrði lokið. Jafnframt vildi flokkurinn að vald til að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjunaráforma yrði fært úr höndum iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan unnið yrði að gerð áætlunarinnar. Þótt Samfylkingin hafi sagt að áætlunin þjónaði því markmiði að greina hvaða náttúruauðlindir ætti að virkja vegna umhverfissjónarmiða þá hefur flokkurinn ekki síður rökstutt stefnu sína með efnahagslegum rökum. Kæla þurfi efnahagskerfið í nokkur ár til að ná stöðugleika. Hversu mörg hefur í raun aldrei komið fram en samfylkingarfólk hefur nefnt á bilinu þrjú til fimm ár í þessu samhengi.