Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við heilbrigðisráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og er hann eini nýi ráðherrann í hópi sjálfstæðismanna. Sturla Böðvarsson verður ekki ráðherra í nýrri ríkisstjórn en tekur við embætti forseta Alþingis. Annars eru ráðherrar þeir sömu og í síðustu ríkisstjórn.
Geir H. Haarde verður forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður menntamálaráðherra, Árni M. Mathiesen verður fjármálaráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Arnbjörg Sveinsdóttir verður áfram formaður þingflokksins.
Samfylkingin fær ráðuneyti utanríkismála, félagsmála, samgöngumála, iðnaðarmála, viðskiptamála og umhverfismála. Síðar í kvöld verður væntanlega greint frá hverjir verða ráðherrar Samfylkingarinnar.
Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar verður kynnt á blaðamannafundi á Þingvöllum klukkan 11 í fyrramálið en áður mun Geir H. Haarde ganga á fund forseta Íslands og tilkynna honum að hann hafi myndað ríkisstjórn.