Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi haldið vel á stjórnarmyndunarviðræðunum við Samfylkingu og bæði fundur flokksráðs Sjálfstæðisflokks og þingflokks í gærkvöldi hafi sýnt, að hann njóti óskoraðs trausts bæði flokksráðs og þingflokks.
Fram kemur hjá Birni, að máli Geirs á flokksráðsfundinum hafi verið mjög vel tekið og eindregnum stuðningi lýst við tillögu hans um stjórnarsamstarfið. Á þingflokksfundinum lagði Geir fram tillögur um ráðherra, þar á meðal að Björn yrði áfram dóms- og kirkjumálaráðherra. „Féllst þingflokkurinn umræðulaust á tillöguna eins og verið hefur síðan ég settist í hann," segir Björn.