Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að sér virðist flest í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vera fremur almennt og opið. Það hljóti því að velta á samspili stjórnarflokkanna hvernig til takist og hún vilji gefa stjórninni reynslutíma til að sjá hvernig það samspil verði áður en hún felli þunga dóma. Henni lítist til dæmis vel á að tryggingamálin verði flutt til félagsmálaráðuneytisins.
Katrín segir það hins vegar vekja sérstaka athygli sína hversu almennur kaflinn um jafnréttismál sé. Þar séu ekki lagðar fram neinar ákveðnar tillögur um launajöfnun kynjanna, aðrar en afnám launaleyndar, heldur einungis lýst yfir vilja til að tekið verði á þeim málum. Það sama megi segja um umhverfismálin og Evrópukaflann þar sem fremur sé um almennar viljayfirlýsingar að ræða en ákveðnar stefnuyfirlýsingar.
Þá segir Katrín það kannski helst koma sér á óvart hversu væg afstaða sé tekin til Íraksstríðsins í stjórnarsáttmálanum í ljósi yfirlýsinga Samfylkingarinnar um málið fyrir kosningar.