Landbúnaðarkerfið endurskoðað og frelsi aukið

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heilsast fyrir blaðamannafund …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heilsast fyrir blaðamannafund á Þingvöllum í dag. mbl.is/RAX

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir m.a. að mikilvægt sé að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Efla skuli samkeppniseftirlit í því skyni. Ríkisstjórnin leggi áherslu á mikilvægi öflugs landbúnaðar og hágæðaframleiðslu á matvælum í landinu og unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi þar sem stjórnarsáttmálinn var kynntur, að breytingar á borð við þessa verði að gera í sátt við bændur og hagsmunaaðila.

„Við munum auðvitað fylgjast með breytingum sem verða á alþjóðavettvangi varðandi tollvernd og kvótasetningu í landbúnaðarframleiðslu. Það eru miklar breytingar í gangi hér á landi varðandi landbúnað og við getum alveg séð fyrir okkur að þróa breytingar í frjálsræðisátt meira en orðið er. Ég held að bændur og forusta þeirra séu síst á móti slíku," sagði Geir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagðist telja að bæði bændur og neytendur geti haft hag af slíkum breytingum en þær verði að gera í sátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert