Orðið ljóst að Norðlingaölduveita verður ekki byggð

Úr Þjórsárverum.
Úr Þjórsárverum. mbl.is/Brynjar Gauti

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að þótt orðalag um Þjórsárver í nýjum stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mætti vera skýrara þá sé orðið ljóst, að Norðlingaölduveita verði ekki byggð. Þá sé yfirlýsing um að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni mikill sigur fyrir náttúruverndarbaráttuna.

Í stjórnarsáttmálanum segir, að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.

„Orðalagið um Þjórsárver mætti vera skýrara en það verður ekki túlkað öðruvísi en að Háumýrar í austri og Eyvafen í vestri tilheyri hinu sérstaka votlendi í Þjórsárverum. Ég tel því að steinninn sé byrjaður að rúlla niður brekkuna og verði ekki stöðvaður," sagði Árni.

Hann segir, að þess hljóti að vera að vænta, að nýr iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, leggi fram frumvarp um afturköllun virkjunarleyfis vegna Norðlingaölduveitu líkt og formaður Samfylkingarinnar lagði fram á þingi í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert