Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar undirrituð á Þingvöllum

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, undirrituðu í dag stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar á Þingvöllum í dag. Flokkarnir hafa einsett sér að mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem kennd er við Þingvelli, eru 15 meginkaflar. Í fyrsta kaflanum kemur fram að eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar sé að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Þá segir jafnframt að sett verði á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála.

Áhersla er lögð á kraftmikið atvinnulíf, markvissan ríkisrekstur og hvetjandi skattaumhverfi, en á kjörtímabilinu verður leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki.

Mikil áhersla er lögð á velferðarmálin og að Ísland verði barnvænt samfélag. Þá skal hagur aldraðra og öryrkja bættur. Auk þess er stefnt að því að minnka óútskýrðan kynbundin launamun um helming hjá ríkinu fyrir lok kjörtímabilsins.

Í kafla um alþjóðamál í málefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er sagt að ný ríkisstjórn harmi stríðsreksturinn í Írak og vilji leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og í Miðausturlöndum.

Í morgun gekk Geir H. Haarde gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og gerði honum grein fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Eftir fundinn var Geir m.a. spurður út í afsögn Jóns Sigurðssonar sem formanns Framsóknarflokksins. Geir sagðist hafa átt gott samstarf með Jóni sem hafi tekið við forystuhlutverkinu í flokknum á erfiðum tíma.

Áformað er að kalla Alþingi saman í næstu viku og áformar ríkisstjórnin að leggja þar fram þrjú mál sem fjalla um málefni aldraðra, aðgerðaáætlun vegna barna og breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert