Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir hina nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vera nýfrjálshyggju hægrikratastjórn sem ljóst sé að sé staðsett langt til hægri á öxli stjórnmálanna. Það veki hins vegar helst athygli varðandi hina nýju stjórn hve mikið ójafnvægi sé á milli flokkanna með tilliti til skiptingar veigamestu ráðuneyta. Þá segir hann það mikil vonbrigði að svo virðist sem Samfylkingin hafi hreinlega gefist upp á nýfengnum áhuga sínum á umhverfismálum.
„Ég get ekki séð betur en að við höfum fengið nýja stóriðjustjórn enda lagði Geir H. Haarde lykkju á leið sína til að leiðrétta þann misskilning sem komist hafði á kreik að í stjórnarsáttmála væri gert ráð fyrir tveggja ára stóriðjustoppi," sagði Steingrímur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Það er ekki verið að tala um neitt alvöru stóriðjustopp. Hann tók af allan vafa um það að stjórnvöld ætli ekki að beita stjórnvaldstækjum sínum til að draga úr stóriðju og það eru að sjálfsögðu mikil vonbrigði."
Steingrímur kvaðst þó óska nýskipuðum ráðherrum til hamingju með þá upphefð sem þeim hafi hlotnast. Mörg góð markmið komi fram í sáttmála hinnar nýju stjórnar og hann efist ekki um að menn ætli sér að vinna vel. Það veki hins vegar athygli hversu lítið sé þar um afdráttarlausar stefnuyfirlýsingar. Flest það sem þar komi fram sé afar markmiðskennt og erfitt að sjá að þar sé nokkru slegið föstu.
„Þá finnst mér athyglisverðir þeir tónar sem slegnir eru varðandi frjálshyggju varðandi heilbrigðis- og menntakerfið en það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi viljað komast í forsvar fyrir heilbrigðisráðuneytið í pólitískum tilgangi til að ýta undir einkavæðingu innan þess," sagði hann. steingrímur sagði