Guðni Ágústsson, fráfarandi landbúnaðarráðherra, sagðist treysta Einari K. Guðfinnssyni allra manna best af þeim sem sitja í nýrri ríkisstjórn til að halda utan um það fjöregg íslensku þjóðarinnar sem landbúnaðurinn væri. Íslendingar hefðu orðið ríkir af sjónum en hamingjusamastir í kringum hestinn og landbúnaðinn. Einar bað Guðna um að lemja ekki mjög mikið sér í andstöðu við nýja ríkisstjórn.
Um leið og Guðni afhenti Einari lykla að landbúnaðarráðuneyti, sem hengdir eru á skeifu, sagði hann að Einar tæki við góðu búi og óskaði honum velfarnaðar.
Einar sagði mjög ánægjulegt að vera treyst fyrir landbúnaðarráðuneytinu og sagði það vera rétt að landbúnaðurinn hafi treyst ímynd sína og ásýnd í þjóðfélaginu. Sjálfur sagðist hann vera gamall sveitadrengur líkt og Guðni. Einar sagðist vonast til að hann gæti sótt góð ráð til Guðna og bað hann náðarsamlegast til að lemja ekki mjög á sér í stjórnarandstöðu.<
„Ég beiti svipunni hóflega," svaraði Guðni þá og sagði síðan að atvinnuvegirnir tveir, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn gætu farið vel saman. „Ég veit að Einari góðvini mínum mun ekki færast mikið í fang að vera yfir tveimur ráðuneytum en við vitum að Íslendingar hafa orðið ríkir af sjónum en hamingjusamir í kringum hestinn og landbúnaðinn."