Jákvæð viðbrögð við stefnuyfirlýsingu

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem formenn flokkanna, Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kynntu í gær, hlýtur ágætar viðtökur hjá ýmsum hagsmunasamtökum. „Mér finnst tónninn í þessu jákvæður og góður," segir t.d. Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Auðvitað er um að ræða almennt málefnaplagg og þ.a.l. lítið um útfærslur. Ég hefði þó viljað sjá vísan í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sem staðfestur var af stjórnvöldum hér 30. mars," segir Sigursteinn. Það hefði mátt gera á svipaðan hátt og vitnað er í Barnasáttmála SÞ. Það hefði stytt mönnum leið að því marki að jafnrétti í reynd verði náð.

Sigursteinn segist þó sérstaklega sáttur við markmið um að einfalda almannatryggingakerfið. „Það er gott að lífeyrishluti almannatrygginganna og Tryggingastofnunar skuli flytjast í félagsmálaráðuneytið," segir hann og að framtíðin ráðist mikið af því hvernig til takist með samráð. „Því var oft mjög ábótavant í tíð fyrri ríkisstjórnar," segir hann og er bjartsýnn á að góðir hlutir geti gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar.

„Viðbrögð okkar eru almennt jákvæð," sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. "Við vonum að hægt sé að viðhalda hér góðum hagvexti og stöðugleika. Við sjáum ekkert í stjórnarsáttmálanum sem á að stoppa það." Í stefnuyfirlýsingunni segir m.a. að „tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja". Það segir Vilhjálmur vera í takt við það sem verið hafi í gangi og gott ef setja eigi aukinn kraft í þessi mál. Vonir SA standi til þess að eiga gott samstarf við ríkisstjórnina, eins og verið hafi fram til þessa með aðrar ríkisstjórnir.

Það markmið að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilegra réttinda og íslenskt launafólk og að allar ráðningar séu í samræmi við gildandi kjarasamninga er mjög í takt við markmið SA. „Við höfum lagt áherslu á það að allir fari eftir sömu leikreglum á vinnumarkaðinum og okkur líst ágætlega á þennan stjórnarsáttmála og þau áform sem stjórnin leggur af stað með."

Mörg atriði í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna um bættan hag aldraðra eru svar við áralangri baráttu eldri borgara og er allvel tekið á kröfum þeirra í málefnasamningnum, að mati Ólafs Ólafssonar, formanns Landssambands eldri borgara. Hann nefndi t.d. baráttu fyrir því að málefni aldraðra yrðu færð til félagsmálaráðuneytis, líkt og nú hefur verið ákveðið. Sömuleiðis að ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða yrði færð frá ríki til sveitarfélaga.

„Það er vænn sigur og við væntum okkur mikils af því," sagði Ólafur. Hann sagði það að skoða sérstaklega samspil skatta, tryggingabóta, lífeyrissjóðsgreiðslna og atvinnutekna einstaklinga til að tryggja meiri sanngirni mjög mikilvægt. Þá sagði Ólafur aldraða fagna hraðari uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða og fjölgun einbýla.

Ekki náðist í framkvæmdastjóra ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson, eða Grétar Þorsteinsson formann, en þeir voru báðir staddir erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert