Magnús afhenti Jóhönnu lykil að velferð skjólstæðinga félagsmálaráðuneytis

Það fór vel á með Magnúsi Stefánssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur …
Það fór vel á með Magnúsi Stefánssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur í félagsmálaráðuneytinu í dag. mbl.is/RAX

Magnús Stef­áns­son af­henti Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, eft­ir­manni sín­um í embætti fé­lags­málaráðherra, lykla að ráðuneyt­inu í dag. Auk hinna hefðbundnu lykla dró Magnús upp vold­ug­an gaml­an lyk­il sem hann sagði vera lyk­il að vel­ferð allra skjól­stæðinga fé­lags­málaráðuneyt­is­ins. „Ég treysti þér fyr­ir hon­um. Gangi þér vel í þágu okk­ar allra," sagði Magnús.

Magnús gaf Jó­hönnu einnig tvær rós­ir, aðra rauða og hina græna. Hann hafði orð á því að græna rós­in væri aðeins minni en sú rauða, en kvaðst ekki vita ástæðu þess. Jó­hanna taldi sig þó vita, að græna rós­in táknaði Fram­sókn­ar­flokk­inn en sú rauða Sam­fylk­ing­una.

Jó­hanna sagðist vona að hún ætti eft­ir að eiga gott sam­starf við Magnús eins og áður þótt hún væri kom­in í þetta hlut­verk núna og hann á þing­manna­bekk. Hún sagði, að fyrstu verk henn­ar í embætti yrðu að tala við starfs­fólkið og kanna stöðuna. „Síðan er ég að fást við ögr­andi verk­efni sem er í stjórn­arsátt­mál­an­um og ég býst við því að mitt fyrsta mál verði að fara yfir aðgerðaáætl­un í mál­efn­um barna og ung­menna, sem verður vænt­an­lega eitt af þeim mál­um sem rík­is­stjórn­in mun flytja á sum­arþingi."

Magnús sagði að það væri ein­kenni­leg til­finn­ing að ganga út úr ráðuneyt­inu í síðasta sinn. „En það get­ur vel verið með mig eins og Jó­hönnu að minni tími muni koma aft­ur. Það kem­ur bara í ljós. Það er mjög gam­an af því að Jó­hanna skuli koma hérna aft­ur. Ég vona að þetta gangi vel hjá henni og starfs­fólk­inu öllu. Nú fer ég bara út og fer að und­ir­búa mig fyr­ir það að taka við hlut­verki Jó­hönnu og lemja á fé­lags­málaráðherr­an­um."

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert