Magnús Stefánsson afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, eftirmanni sínum í embætti félagsmálaráðherra, lykla að ráðuneytinu í dag. Auk hinna hefðbundnu lykla dró Magnús upp voldugan gamlan lykil sem hann sagði vera lykil að velferð allra skjólstæðinga félagsmálaráðuneytisins. „Ég treysti þér fyrir honum. Gangi þér vel í þágu okkar allra," sagði Magnús.
Magnús gaf Jóhönnu einnig tvær rósir, aðra rauða og hina græna. Hann hafði orð á því að græna rósin væri aðeins minni en sú rauða, en kvaðst ekki vita ástæðu þess. Jóhanna taldi sig þó vita, að græna rósin táknaði Framsóknarflokkinn en sú rauða Samfylkinguna.
Jóhanna sagðist vona að hún ætti eftir að eiga gott samstarf við Magnús eins og áður þótt hún væri komin í þetta hlutverk núna og hann á þingmannabekk. Hún sagði, að fyrstu verk hennar í embætti yrðu að tala við starfsfólkið og kanna stöðuna. „Síðan er ég að fást við ögrandi verkefni sem er í stjórnarsáttmálanum og ég býst við því að mitt fyrsta mál verði að fara yfir aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna, sem verður væntanlega eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin mun flytja á sumarþingi."
Magnús sagði að það væri einkennileg tilfinning að ganga út úr ráðuneytinu í síðasta sinn. „En það getur vel verið með mig eins og Jóhönnu að minni tími muni koma aftur. Það kemur bara í ljós. Það er mjög gaman af því að Jóhanna skuli koma hérna aftur. Ég vona að þetta gangi vel hjá henni og starfsfólkinu öllu. Nú fer ég bara út og fer að undirbúa mig fyrir það að taka við hlutverki Jóhönnu og lemja á félagsmálaráðherranum."