Síðari ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er nú að hefjast á Bessastöðum en síðar í dag tekur ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar formlega við völdum. Sjö ráðherrar, sex úr Framsóknarflokki og einn úr Sjálfstæðisflokki, láta af embætti í dag en fimm ráðherrar Sjálfstæðisflokks sitja áfram og sex nýir ráðherrar Samfylkingar taka við.
Guðni Ágústsson, sem tók við formennsku í Framsóknarflokknum í gær, sagði þegar hann kom til fundarins á Bessastöðum í morgun, að nú hefði hann losnað við beislið og væri frjáls. Hann lætur af embætti landbúnaðarráðherra í dag.
Valgerður Sverrisdóttir, sem lætur af embætti utanríkisráðherra, sagði að það væru engin endalok að fara úr ríkisstjórn heldur hluti af hinu lýðræðislega ferli. Lagt hefur verið að henni að taka að sér embætti varaformanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi, sem væntanlega verður haldinn innan skamms. Þegar hún var spurð um þetta í morgun svaraði hún að þau mál væru í skoðun en vildi ekki tjá sig nánar.
Siv Friðeifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, og nýkjörinn formaður þingflokks Framsóknarflokks, sagði að nú væri það orðið hlutverk flokksins að sitja í stjórnarandstöðu sem yrði öflug.
Ný ríkisstjórn tekur við völdum á ríkisráðsfundi klukkan 14 og að honum loknum taka nýir ráðherrar við lyklavöldum í ráðuneytum sínum.