Sturla Böðvarsson, fráfarandi samgönguráðherra verður forseti Alþingis til næstu tveggja ára. Á miðju kjörtímabili, eða haustið 2009, fær Samfylkingin forsetaembættið yfir til sín og tilnefnir þingmann í forsetastól.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það hluti af samkomulagi þeirra Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í stjórnarmyndunarviðræðunum, sem lauk í fyrradag, að hvor flokkur um sig fengi embætti forseta Alþingis í sinn hlut í tvö ár; fyrst Sjálfstæðisflokkur til 2009 og síðan Samfylking frá 2009 til 2011. Ekki liggur fyrir hvern Samfylkingin mun gera að forseta Alþingis að tveimur árum liðnum.