Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn forseti Alþingis á þingsetningarfundi í dag með 54 samhljóða atkvæðum en fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Sturla, sem var einn í kjöri, sagðist myndu leggja sig fram við að tryggja að sem best samstarf yrði milli alþingismanna á þinginu.
Sturla sagði m.a. að staða Alþingis í skoðanakönnunum væri ekki nægilega traust. Deilur um grundvallaratriði stjórnmálanna gætu mótað þá mynd, sem væri af þinginu í hugum almennings en einnig ættu umræðuhættir Alþingis nokkra sök. Hvatti Sturla til þess, að þingmenn tækju saman höndum og bættu um betur og sagði það vera hlutverk þingmanna að sjá til þess að Alþingi njóti virðingar og trúverðugleika.
Sturla sagði það vera þrálátt viðhorf, að sterk stjórnarandstaða fæli það í sér halda margar og langar ræður í þingsalnum. Alþingi væri meginvettvangur stjórnarandstöðunnar og hún þyrfti á því að halda, að þingið hafi sterka stöðu þannig að málflutningur og aðhald stjórnarandstöðunnar fái þann styrk sem nauðsynlegt er. Sturla sagðist ekki vera að kalla eftir styttri ræðum heldur markvissara starfi og betri skipulagningu og stjórnarmeirihlutinn þyrfti einnig að sjá til þess að nefndir þingsins fái nauðsynlegt svigrúm til starfa svo hægt sé að vanda til verka.