Ríkisstjórnarflokkar bæta við sig fylgi

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hefur aukist eftir að ný ríkisstjórn var mynduð, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi Sjálfstæðisflokks hefur aukist um 5 prósentur frá kosningunum 12. maí og mælist nú 41% en fylgi Samfylkingar hefur aukist um 2 prósentur og mælist 29%.

Fylgi annarra flokka dalar frá kosningum. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mælist nú 13%, Framsóknarflokkurinn er með næstum 10% fylgi, Frjálslyndi flokkurinn mælist með ríflega 5% fylgi og Íslandshreyfingin með tæplega 2%.

Nær 13% svarenda tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og næstum 4% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosningar færu fram í dag.

Gallup spurði einnig hvernig fólki litist á stjórnarsamstarfið. Rúmlega 60% þátttakenda líst vel á nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en rúmum 17% líst illa á hana. Tæpum 23% líst hvorki vel né illa á ríkisstjórnina.

Um 64% kvenna líst vel á stjórnarsamstarfið á móti 57% karla og fimmtungi karla illa á samstarfið en 14% kvenna hugnast það illa. Mun fleiri íbúum höfuðborgarsvæðisins líst vel á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar heldur en íbúum annarra sveitarfélaga eða 66% á móti 48%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert