Á stjórnarfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs síðdegis var ákveðið að stefna að því að halda landsfund flokksins helgina 20.-22. mars. Dagsetning fundarins tekur mið af vilja Vinstri grænna til að gengið verði til kosninga laugardaginn 4. apríl, helgina fyrir páska.
„Á undan kæmi stutt og snörp kosningabarátta en um það bil tveggja mánaða tímabil fram að henni ætti að tryggja framboðum nægan undirbúningstíma,“ segir í tilkynningu frá VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir í samtali við Reutersfréttastofuna í dag að hann sé reiðubúinn til að taka við embætti forsætisráðherra ef flokkur hans vinnur sigur í kosningum í vor.
Þá segir Steingrímur, að hann vilji semja upp á nýtt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þá skilmála, sem settir voru fyrir fjárhagsaðstoð sjóðsins við Ísland.
„Íslenska þjóðin hefur þegar reynt á eigin skinni hvað sumir þessir skilmálar þýða og ég held að við myndum njóta stuðnings marga í tilraunum við að taka upp samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að nýju og að minnsta kosti laga þessa áætlun betur að íslenskum þörfum og kringumstæðum," segir Steingrímur.
Miðlæg kosningastjórn VG er þegar tekin til starfa og unnið er að því að koma upp staðbundnum kosningastjórnum í öllum kjördæmum. Opnir málefnahópar hafa verið að störfum og mun flokkurinn beita sér fyrir því að nýir og verðandi félagar taki virkan þátt í því starfi fyrir kosningar.