Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna, segir að það sé sér nú efst í huga að óska Geir H. Haarde forsætisráðherra alls góðs í þeim veikindum sem hann standi frammi fyrir og þess að hann nái sem fyrst góðum bata. Hann er hins vegar ekki sáttur við að ekki skuli boðað til kosninga strax.
„Ég er undrandi á því að ekki skuli vera efnt til kosninga strax, eins og krafan hefur verið um, og þá á ég við innan nokkurra vikna,” sagði hann en blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag.
„Það eina sem þarf að gera til þess að hægt verði að kjósa er að gefa öllum sem vilja kost á að bjóða sig fram og skipuleggja sig. Það tekur ekki nema nokkrar vikur og það þarf því ekki að tefja málið fram á vor eða sumar. Þá fannst mér ég heyra það á orðun Geirs að til standi að bjóða þjóðinni upp á óbreytt ástand fram að kosningum og það finnst mér ekki lofa góðu.
Það þarf að gera breytingar strax bæði vegna þess neyðarástands sem heimilin í landinu standa frammi fyrir og vegna þeirra skuldbindinga sem verið er að flækja okkur í erlendis og enginn fær að vita almennilega um. Það þarf að svipta hulunni af hlutunum og setja allt upp á borðið.”