Sigmundur: Tilboðið stendur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn

„Það eru allir miður sín,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vegna frétta af veikindum Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Hann segir að Framsóknarmenn sendi bæði Geir og fjölskyldu hans bestu óskir um skjótan og góðan bata. „En hvað varðar stjórnarsamstarfið þá stendur tilboð Framsóknarflokksins ennþá,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is.

Framsóknarflokkurinn greindi frá því á miðvikudag að hann sé reiðubúinn að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli komi til þess að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hittist á aukafundi í dag kl. 14 til að ræða tíðindi dagsins, en Geir greindi m.a. frá því í dag Sjálfstæðiflokkurinn vilji að boðað verði til kosninga 9. maí nk. „Við hefðum viljað sjá kosningar fyrr og það sem er kannski óheppilegt við þessa dagsetningu, sem þarna er nefnd, er að hún er á þeim tíma sem skólafólk er í prófum, eða prófundirbúningi,“ segir Sigmundur. Hann telur þó jákvætt að það eigi að boða til kosninga í vor.

Hann segir að Framsóknarmenn telji að núverandi ríkisstjórn eigi erfitt með að sitja áfram vegna þess hvernig hafi verið talað undanfarna daga og vegna „þessarar miklu óánægju sem virðist vera í báðum stjórnarflokkunum. En ef hún mun starfa áfram og treystir sér til þess að vinna að þeim verkefnum, sem við höfum bent á að séu brýnust varðandi skuldir heimilanna og rekstrarstöðu fyrirtækja, þá erum við alveg tilbúin að veita henni svigrúm til þess,“ segir Sigmundur.

Hann segir hins vegar að ríkisstjórnin verði að fara sýna með aðgerðum að hún sé reiðubúin að takast á við vandann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert