Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segist vera sleginn út af laginu vegna fregna af veikindum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. „Það á ekki af okkur að ganga af hlutum sem þessum. Það er ótrúleg staða, dapurleg sem hún er, að formenn beggja stjórnarflokkanna stríði, eða hafi strítt við alvarleg veikindi. Ekki bætir það úr skák við allar þær erfiðu aðstæður sem við glímum við," segir Steingrímur.
Steingrímur segist óska Geir alls hins besta og vill hrósa honum fyrir að taka skynsamlega og yfirvegaða ákvörðun um að draga sig í hlé og hugsa um sig og sína heilsu. „Ég held að hann bregðist mjög yfirvegað við þessu," segir Steingrímur.
Landsfundi VG væntanlega flýtt
Formaður VG segist gera ráð fyrir því að landsfundi VG sem fyrirhugað var að halda í haust verði flýtt en stjórnarfundur verður haldinn hjá flokknum síðar í dag. Á hann von á því að þar verði samþykkt að halda landsfund eins fljótt og auðið er. Hins vegar verði ekki hægt að halda landsfundinn á tíu ára afmæli VG þann 6. febrúar þar sem það sé of skammur fyrirvari.
Steingrímur segist fagna þeirri ákvörðun að kosningum verði flýtt en telur að þær ætti að halda fyrr en 9. maí líkt og forsætisráðherra boðaði í dag.
„Það er mikið vatn til sjávar runnið frá því við í byrjun nóvember komum fyrst fram með þá kröfu að það væri óumflýjanlegt að gera þessa hluti upp með kosningum. Ástandið væri þannig. Við myndum gjarna vilja sjá að þessi kjördagur yrði fyrr. Einfaldlega vegna þess að því styttra sem þetta óvissutímabil er, hvernig sem það verður, er betra. Ég geri því fastlega ráð fyrir því að menn ræði það í framhaldinu, formenn flokka, að koma sér saman um tímasetningu kjördags og aðra hluti.
Ríkisstjórnin verður að vera starfhæf
Steingrímur segir að það sé greinilegt að Geir sjái fyrir sér að núverandi ríkisstjórn sitji áfram þar til kosið verður á ný. „En við vitum hvernig ástandið er í Samfylkingunni og kröfur þar um að stjórnin fari frá. Eins eru uppi háværar kröfur um það úti í þjóðfélaginu. Sú ríkisstjórn sem situr þennan tíma verður náttúrulega að vera vel starfhæf og geta tekið á því sem þarf að taka á. Þó það sé orðið ljóst úr þessu að það mun sitja einhvers konar starfsstjórn. Það verður bara að skýrast í framhaldinu hvernig þeim málum verður skipað," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.