Íslensk mótmæli vekja athygli

Mótmælendur við Þjóðleikhúsið í vikunni.
Mótmælendur við Þjóðleikhúsið í vikunni. mbl.is/Golli

Mót­mæl­in gegn stjórn­völd­um á Íslandi vekja mikla at­hygli í Bretlandi ef marka má þarlenda fjöl­miðla. Marg­ir Bret­ar, sem blogga við frétt á vef breska blaðsins Daily Mail um ís­lensk stjórn­mál og mót­mælaaðgerðir hvetja til sams­kon­ar aðgerða þar í landi.

Daily Mail seg­ir  frá því að ákveðið hafi verið að halda þing­kosn­ing­ar á Íslandi í vor þótt kjör­tíma­bil­inu ljúki ekki fyrr en 2011. Geir H. Haar­de, for­sæt­is­ráðherra, hafi látið und­an vax­andi þrýst­ingi Íslend­inga, m.a. vegna stöðugra mót­mælaaðgerða. Túlk­ar blaðið það þannig, að ís­lenska rík­is­stjórn­in sé sú fyrsta sem hafi fallið vegna láns­fjár­krepp­unn­ar. 

Fjöl­marg­ir tjá sig um frétt­ina í at­huga­semda­kerfi blaðsins. „Get­um við fengið þetta fólk lánað hingað til að fara eins með Gor­don Brown," spyr einn les­and­inn.  „Hann á ekk­ert annað skilið."

„Ég vildi að Bret­ar hefðu döng­un í sér til að mót­mæla rík­is­stjórn­inni okk­ar, við virðumst öll þjást af sinnu­leysi (þar á meðal ég). Hugs­an­lega myndi for­sæt­is­ráðherr­ann okk­ar skilja fyrr en skell­ur í tönn­um og boða til kosn­inga ef við sam­einuðumst gegn hon­um," seg­ir ann­ar.

„Fólk ger­ir sér ekki grein fyr­ir því hve mikið þessi maður hef­ur skuld­sett Bret­land, við erum öll nán­ast gjaldþrota. Þjóðarskuld­ir okk­ar eru nú  
£7.700.000.000.000.000.000, þetta er 7,7 bill­jón­ir punda," seg­ir sá þriðji. 

Frétt Daily Mail

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert