Samfylkingin: Mun meiri biðlund á landsbyggðinni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðir við fréttamenn í gær ásamt Ágústi …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðir við fréttamenn í gær ásamt Ágústi Ólafi Ágústssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur, þegar formaðurinn kom til landsins eftir sjúkrahúsvist í Svíþjóð. Kristinn Ingvarsson

Talsverður viðhorfsmunur er á milli Samfylkingarfólks af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, varðandi það hvort slíta beri stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn strax. Samkvæmt heimildum mbl.is kom berlega í ljós í dag, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins og utanríkisráðherra, fundaði með formönnum Samfylkingarfélaga af öllu landinu, að biðlundin er mun meiri úti á landi.

Á fjölmennum félagsfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í Þjóðleikhússkjallaranum í vikunni var samþykkt samhljóða ályktun þess efnis að skora á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því að ríkisstjórninni verði slitið strax og mynduð verði ný stjórn fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí í vor.

Fleiri félög á höfuðborgarsvæðinu hafa lýst sömu skoðun og fram kom á fundi Reykjavíkurfélagsins en á fundi Ingibjargar Sólrúnar með formönnunum í dag var annar tónn í fólki utan af landi. Það er reyndar almenn skoðun að skipta beri út yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins en landsbyggðarfólk krefst þessi ekki að stjórnarsamstarfi verði slitið heldur er almennur vilji í þeim hópi að stjórnin sitji til kosninga.

Sumir af landsbyggðinni minntu á það í dag að grasrót flokksins væri ekki bara í 101 Reykjavík.  Ekki væri ástæða til þess að flýta sér um of; kreppan væri ekki alveg ný af nálinni; hefði í raun verið árum saman úti á landi og betra væri að núverandi ríkisstjórn sinnti aðkallandi verkefnum til vors en slíta stjórnarsamstarfi nú.

Ingibjörgu Sólrúnu var á fundinum í dag veitt fullt umboð til þess að ákveða framhaldið.

Samfylkingarfélög landsins er rúmlega 40. Formenn flestra þeirra voru í Reykjavík í dag en þeir sem ekki áttu heimagengt tóku þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hittust ekki á fundi í dag eins og ráðgert var en munu hittast á morgun.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.
Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert