Geir: Má ekki missa dampinn

Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn.
Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar séu nú að ræða hvernig eigi að halda stjórn á landinu á næstu vikum og mánuðum. Eitt og annað megi ekki fara úrskeiðis og ekki mætti missa dampinn.

Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sátu á stuttum  fundi á heimili Geirs í hádeginu ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra. Gert er ráð fyrir að forustumenn flokkanna muni ráða ráðum sínum, hvorir í sínu lagi, frameftir degi. 

Geir sagði við blaðamenn eftir fundinn, að tryggja þurfi pólitískan meirihluta og traust stjórnarsamstarf. Hægt sé að gera það jafnhliða því, að flokkarnir eru í kosningabaráttu.

Geir sagðist ekki telja, að mikill ágreiningur væri á milli flokkanna um þau verk sem þurfi að vinna en ná þyrfti utan um stöðuna. Miklu skipti að það ríki festa í landsstjórninni og stjórnað sé af ábyrgð. Hins vegar sé greinilegt, mjög skiptar skoðanir séu innan Samfylkingar um framhaldið. Nú liggi því fyrir, annaðhvort að leggja traustan málefnalegan grunn að áframhaldandi samstarfi eða finna annan kost.

Geir sagði aðspurður um tilboð VG um þjóðstjórn, að ekki hafi komið fram hvað í því boði felist. Stjórnarsamstarf hljóti að byggja á málefnalegum forsendum, þar á meðal efnahagsáætluna, sem unnin var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sagði Geir að sér hefði heyrst að það væri vandamál hjá Vinstri grænum.

Ómaklegt að Björgvin víki

Um afsögn Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, sagði geir að hann teldi ómaklegt að Björgvin víki. Hann hefði staðið sig mjög vel og verið traustur og góður samstarfsmaður. Geir sagðist þó virða ákvörðun Björgvins, sem hefði verið tekið til að leysa úr ákveðinni spennu sem myndast hefði um hans ráðuneyti og stofnanir.

Geir sagði að ekkert lægi fyrir um hvort frekari breytingar verði á ríkisstjórninni, haldi hún áfram samstarfi. Þá lægi ekkert fyrir hvort breytingar verði á yfirstjórn Seðlabankans í kjölfar þess að stjórn og forstjóri Fjármálaeftirlitsins hætta. 

Ingibjörg Sólrún og Össur fara af fundinum með Geir og …
Ingibjörg Sólrún og Össur fara af fundinum með Geir og Þorgerði Katrínu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka