„Alls ekki algjörlega, þetta hefur lengi verið í umræðunni,“ segir Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, aðspurður hvort afsögn Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, hafi komið honum á óvart.
Jón var á stjórnarfundi í Fjármálaeftirlitinu þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum. Samhliða afsögn sinni fól Björgvin Jóni og öðrum stjórnarmeðlimum FME að ganga frá starfslokum Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra FME, og óskaði jafnframt eftir því að stjórn FME segði í kjölfarið af sér. Jón vildi ekki tjá sig um það að svo stöddu.
„Ástæða ákvörðunar minnar er sú sannfæring mín að nauðsynlegt sé að ryðja brautina fyrir uppgjör og uppbyggingu sem byggi á trausti almennings. Forsendur fyrir því að skapa frið og traust í samfélaginu til endurreisnar eru meðal annars þær að stjórnmálamenn og stjórnendur stofnana samfélagsins axli ábyrgð,“ segir Björgvin í bréfi til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, þar sem hann tilkynnir um afsögn sína.
Fjármálaeftirlitið hefur legið undir gagnrýni fyrir að hafa sofið á verðinum í aðdraganda bankahrunsins. Einnig hafa þær raddir verið háværar að röng hugmyndafræði hafi verið við lýði við bankaeftirlit á Íslandi. M.a sagði Gylfi Magnússon, dósent við HÍ, í samtali við Morgunblaðið nýlega að eftirlitsstofnanirnar hefðu verið einhvers konar bakhjarl, fremur en varðhundur kerfisins.