Samfylkingin hefur náð frumkvæði

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar
Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að með afsögn Björgvins G. Sigurðssonar úr embætti viðskiptaráðherra hafi Samfylkingin náð frumkvæði við stjórn landsins og sýnt að hún skilur að til að hægt verði að koma endurreisn samfélagsins á skrið þarf að endurnýja traust milli þjóðar og stjórnvalda.

„Það er ljóst að verulegar breytingar þurfa að verða á stjórn landsins svo slá megi striki aftan við það tímabil sem einkennt hefur undanfarna 100 daga eftir fall bankahrunsins.  Samfylkingin hefur á þessum tíma lagt þunga áherslu á tiltekt í stjórnkerfinu, markvissar aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja, aðgerðir sem lúta að siðferðilegri ábyrgð ráðamanna, og skýr fyrirheit um framtíðina ekki síst afstöðuna til Evrópusambandsaðildar.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mætt þessum kröfum sem skyldi en nú verður að láta hendur standa fram úr ermum," segir Skúli.

Hann segir, að Björgvin hafi með afsögn sinni og ákvörðun um að hreinsa til í yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins gefið tóninn fyrir þá löngu tímabæru hreingerningu, sem Samfylkingin hafi barist fyrir innan ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði.  „Krafan um endurnýjun í yfirstjórn Seðlabanka Íslands verður nú enn háværari og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki annan kost en að svara því kalli ef hann vill eiga sér viðreisnar von. "

Þá segir Skúli, að hvort sem  núverandi ríkisstjórn sitji áfram eða önnur taki við þurfi að hreinsa til í Seðlabanka Íslands í því skyni að endurvinna traust innanlands og á alþjóðavettvangi.  Eðlilegt sé að gera breytingar á skiptingu ráðuneyta milli flokkanna til að styrkja verkstjórnina á þeim sviðum, sem mestu muni ráða um hag heimila og fyrirtækja í landinu á komandi vikum. 

„Verkefnið er ögrandi en það kemur ekkert annað til greina en að hér verði við völd kraftmikil ríkisstjórn sem kemur hlutum í verk á þeim 100 dögum sem lifa fram að kosningum," segir Skúli. „Samfylkingin hefur mikið verk að vinna á næstu 100 dögum.  Við munum ekki hlaupast frá erfiðum verkum en hitt er morgunljóst að við munum ekki bíða lengur eftir því  að samstarfsflokkurinn leggist á árarnar með okkur í bráðnauðsynlegum björgunaraðgerðum."

Grein Skúla Helgasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka