Útilokum ekki breytingar

Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn við heimili sitt undir …
Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn við heimili sitt undir kvöld. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að sjálfstæðismenn hefðu ekki útilokað neinar breytingar, hvorki í eigin röðum né í samstarfi stjórnar flokkanna.

„En við ráðum okkar málum sjálfir, sjálfstæðismenn og það sama gegnir um Samfylkinguna," sagði Geir.

Þegar Geir var spurður hvort kæmi til greina af hans hálfu að skipta um stjórnendur Seðlabankans sagði að í sjálfu sér kæmi allt til greina. Hann benti á, að undanfarið hefði farið fram skoðun á því hvernig skipuleggja eigi fjármálaeftirlitskerfið og  finnskur sérfræðingur væri að vinna að málum Fjármálaeftirlitsins. Þá hefðu íslensk stjórnvöld beðið  Alþjðóðgjaldeyrissjóðinn að leggja sér til  efni og aðstoð við að skipuleggja þetta sem sem best í framtíðinni  með titlliti til þess sem hefði gerst. 

Geir sagði, að í ljósi þessa fyndist sér að ekki ætti að rasa um ráð fram í þessu efni en Sjálfstæðisflokkurinn hefði þó ekki hafnað neinu varðandi breytingar.

Geir sagðist aðspurður ekki vita, hvort nota ætti orðið krafa um þau sjónarmið, sem Samfylkingin hefði komið fram með um breytingar í stjórnkerfinu en vissulega hefði það borið á góma af hálfu Samfylkingarfólks að gera breytingar á Seðlabankanum.  

Um það hvort núverandi stjórnarsamstarfi verði haldið áfram sagði Geir, að það gæti brugðið til beggja vona. Hins vegar væri ábyrgðarhluti að skilja landið eftir stjórnlaust og allir flokkar, ekki síst þeir sem nú stýra landinu bæru ábyrgð á að tryggja að starfhæf ríkisstjórn væri í landinu sem leiði mál til lykta sem varða hagmuni heimila og fyrirtækja. Þá væri mikilvægt að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haldi svo hægt verði að sjá fram á árangur af starfi síðustu vikna og mánaða.

Geir sagði, að sjálfstæðismenn hefðu ekki verið í viðræðum við aðra flokka um stjórnarsamstarf. Þá lagði hann áherslu á, að hann hefði sem forsætisráðherra ekki afsalað sér þingrofsvaldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert